
Aðalfundur Golfklúbbs Grindavíkur fór fram í dag í golfskálanum á Húsatóftum. Helstu tíðindi eru þau að Halldór Einir Smárason var endurkjörinn formaður GG. Stjórn er að mestu óbreytt en Hávarður Gunnarsson kemur inn í varastjórn í stað Jóns Guðmundssonar sem féll frá á síðasta ári.
Stjórnin kynnti tillögur að félagsgjaldi fyrir starfsárið 2015. Fundurinn samþykkti með miklum meirihluta að fara þá leið að lækka almennt félagsgjald úr 59.000 kr. í 49.000 kr. Félagsgjald hjá um 80% kylfingum lækkar þar með töluvert. Gerðar verða frekari breytingar á gjaldskrá GG fyrir starfsárið 2015 og verða þær kynntar nánar á næstu dögum. Stjórn GG er einhuga í þessari aðgerð. Stefnt er að því að fjölga félögum í GG töluvert á næstu þremur árum og er markmiðið að þeir verði 300 að þremur árum liðnum.
Eftir breytinguna verður Golfklúbbur Grindavíkur með lægsta félagsgjald 18 holu golfvallar á landinu og eitt lægsta vallargjald þó víðar væri leitað. Félagsgjald GG verður tæplega helmingi lægra en hjá stóru klúbbunum á höfuðborgarsvæðinu.
Nánari niðurstöður fundarsins verða kunngerðar á heimasíðu GG á morgun, sunnudag. Þar verður að finna niðurstöðu ársreiknings og fleiri fréttir úr starfi GG.
Stjórn GG 2015: Halldór Einir Smárason formaður, Jón Júlíus Karlsson, Ingvar Guðjónsson, Sverrir Auðunson, Ólafur Már Guðmundsson, Sigmar Eðvardsson, Þorlákur Halldórsson.
Varastjórn: Halldór Jóel Ingvason og Hávarður Gunnarsson.