Hola 4 - Lýsing
Fjórða brautin er mjög skemmtileg par 4 hola sem liggur í hundslöpp til hægri. Brautin er alls ekki löng og margar hættur steðja að kylfingum sem ekki gá að sér. Upphafshöggið er að hluta til blint þar sem hóll er fyrir framan og ekki er auðvelt að sjá lendingarsvæðið á bak við hólinn. Mikið landslag er í brautinni sem gerir það að verkum að kylfingar eiga það til að misreikna fjarlægðina að flaggi. Högglangir menn reyna að staðsetja upphafshöggið við brekkuna sem liggur að flötinni. Flötin liggur upp á háum stalli og varin að aftan með hrauni. Innáhöggið er algjörlega blint og ekki hægt að láta boltann skoppa inn á flöt. Of stutt högg þýðir að boltinn rúllar til baka niður bratta brekkuna og inn á brautina. Of langt högg endar hins vegar í hrauni og mosa. Flötin sjálf er mjó og á tveimur pöllum sem takmarkar lendingarsvæðið, hér skiptir öllu máli að hitta flötina og tryggja parið.