
Kylfingar á suðvestur horni landsins iða í skinninu enda stefnir í flotta golfhelgi. Flatir Húsatóftavallar voru slegnar og valtaðar í gær og líta vel út fyrir helgina. Róbert Árni Halldórsson, vallarstjóri Húsatóftavallar, kannaði hraðann á flötunum í dag sem er um 7,5 á stimp.
Húsatóftavöllur verður opinn á morgun (laugardag) og er vallargjald aðeins 2.000 kr.- Klúbbhúsið verður ekki opið en við í GG treystum kylfingum fyrir því að leggja inn flatargjald rafrænt á reikning klúbbsins. Reikningsnúmer GG er 0143-26-008797 og kennitalan er 6903830399.
Á sunnudag fer fram Nóvembermót GG. Þátttaka í mótinu lofar svo sannarlega góðu og tók mótanefnd þá ákvörðun í dag að ræsa út á átta mínútna fresti svo að fleiri kylfingar geti tekið þátt í mótinu. Keppendur eru því beðnir um að kanna rástíma sinn sérstaklega sem gæti hafa breyst örlítið.
Kylfingar eru hvattir til að huga sérstaklega að leikhraða. Myrkur skellur á upp úr kl. 17:00 og geta kylfingar hæglega leikið Húsatóftavöll á 3,5 klst. sé iðkað svokallað „Ready Golf“.
Skráning í Nóvembermót GG fer fram á golf.is eða með tölvupósti á gggolf@gggolf.is.