Skýrsla stjórnar Golfklúbbs Grindavíkur 2014

Skýrsla stjórnar Golfklúbbs Grindavíkur 2014

Halldór Einir Smárason, formaður Golfklúbbs Grindavíkur, las upp skýrslu stjórnar GG fyrir starfsárið 2014 á aðalfundi klúbbsins sem fram fór 10. janúar síðastliðinn. Skýrsluna má lesa í heild sinni hér að neðan.

Stjórn GG
Á síðasta aðalfundi GG gengu þeir Páll Erlingsson formaður og Gunnar Oddgeir Sigurðsson úr stjórn. Golfklúbbur Grindavíkur vill þakka þeim fyrir vel unnin störf til margra ára. Í stjórnina gengu þeir Þorlákur Halldórsson og Ingvar Guðjónsson.

Stjórn GG var því þannig skipuð árið 2014
Halldór Smárason formaður, Sigmar Eðvarðsson varaformaður, Sverrir Auðunsson gjaldkeri, Jón Júlíus Karlsson ritari, Ólafur Már Guðmundsson meðstjórnandi, Jón Guðmundsson meðstjórnandi, Þorlákur Halldórsson meðstjórnandi, Ingvar Guðjónsson varamaður í stjórn og Halldór Ingvason varamaður í stjórn.

Jón Guðmundsson féll frá í október 2014 eftir erfið veikindi. Jón starfaði í stjórn GG fram til vors 2014 þegar hann baðst lausnar vegna heilsubrests. Jón var búin að vera heiðursfélagi síðan 2011 og þakkar stjórn GG Jóni óeigingjörn störf í þágu klúbbsins.

Nefndir GG árið 2014
Aganefnd: Halldór Einir Smárason, Ingibjörg Grétarsdóttir og Halldór Ingvason
Mótanefnd: Þorlákur Halldórsson, Jón Júlíus Karlsson, Jón Halldór Gíslason, Sigurður Jónsson.
Afreksnefnd: Helgi Dan Steinsson, Jón Júlíus Karlsson.
Vallarnefnd: Ingvar Guðjónsson, Jóhann S. Ólafsson, Birgir Hermannsson.
Forgjafarnefnd: Hávarður Gunnarsson, Þorlákur Halldórsson.
Bygginganefnd: Ólafur Már Guðmundsson, Jón Guðmundsson, Sigmar Eðvarðsson.
Rekstrarnefnd: Sverrir Auðunsson, Halldór Einir Smárason.

Framkvæmdir
Á vormánuðum var hafist handa við að klæða skálann að utan með varanlegri álklæðningu, Trésmíðaverkstæðið Grindin sá um verkið. Grindavíkurbær og Bláa Lónið styrktu okkur myndarlega til verksins, einnig náðum við að semja um góð kjör á klæðningarefninu hjá Áltaki. Enn á þó eftir að ganga frá þakkanti, rennum og útilýsingu.

Vonir okkar stóðu til þess að koma malbiki á bílastæði gesta á árinu 2014, því réðumst við í umtalsverða jarðvinnu á bílastæðinu með tilheyrandi óþægindum fyrir gesti klúbbsins. Þessar vonir okkar gengu því miður ekki eftir. Þó náðist að slétta góðan hluta svæðisins svo gestir gátu lagt bílum sínum og komist án mikilla óþæginda um svæðið. Von er á styrk frá Grindavíkurbæ til framkvæmda á hluta bílastæðisins á árinu 2015.

Á vellinum sjálfum voru ekki miklar nýframkvæmdir á árinu. Töluvert var samt unnið við stígagerð, og taka menn helst eftir nýjum stíg á 16.braut og stíg á tíundu braut sem áætlað er að klára á vormánuðum 2015. Yfirsáning í nýju brautirnar heppnaðist vel á árinu, en alls var fjórum sinnum farið í það að holufylla nýju brautirnar og er það mat vallarstjóra að vel hafi tekist til í sumar. Ný teigmerki litu dagsins ljós á fyrsta degi meistaramóts, og þá eru teigmerki, lengdarmerki og ruslatunnur á vellinum orðin í sama stíl.

Bilanir á tækjabúnaði settu líka svip sinn á útgjaldalið vallarins á árinu 2014, eða eins og vallarstjórinn orðar það, þá var árið 2014, ár bilana. Framkvæmdir voru því í lágmarki á árinu en athyglinni frekar beint að því að halda vellinum í góðu standi.

Starfsmenn
Á árinu 2014 var gerð sú breyting að starf formanns klúbbsins var launað í 7 mánuði, því var komin föst viðvera formanns í golfskála. Þessi breyting skilaði ákveðinni festu í rekstur vallarins sem og bættri þjónustu við félaga og gesti Golfklúbbs Grindavíkur. Sex starfsmenn voru við vinnu á vellinum í sumar. Vallarstjóri í fullu starfi, einn starfsmaður í sex mánuði og fjórir sumarstarfsmenn í fjóra mánuði. Grindavíkurbær styrkir GG um stóran hluta launa þessara sumarstarfsmanna. Í golfskálanum voru tveir starfsmenn í sex mánuði með styrk frá Vinnumálastofnun. Þetta er fækkun um tvo frá því í fyrra en ástæðan er sú að dregið var úr styrkveitingum Vinnumálastofnunnar. Á álagstímum var kallað í fólk til tímabundinnar vinnu. Einnig vorum við með matreiðslumann til þess aðstoða við móttöku stærri hópa. Sumarið 2014 var því Golfklúbbur Grindavíkur með 9 starfsmenn í fullu starfi um fjögurra mánaða skeið, auk afleysinga.

Aðalfundur GG árið 2015.

Aðalfundur GG árið 2015.

Golf
Árið 2014 voru 193 félagar skráðir í GG, og er það fækkun um 4 félaga frá fyrra ári. Sumarið 2014 verður kennt við rok og rigningu í sögu GG.

Rástímaskráning á Húsatóftavöll var tekin föstum tökum og má segja að vel hafi tekist til við að halda utan um fjölda heimsókna og hverjir það eru sem heimsækja Húsatóftavöll. Á árinu 2014 eru skráðir 10.578 spilaðir hringir, en u.þ.b 700 – 800 hringir eru óskráðir þannig að það voru tæplega 11.500 hringir spilaðir á Húsatóftavelli sumarið 2014. Þrátt fyrir það veður sem buldi á okkur, þá sá GG um 40 golfmót sem er 30% aukning frá 2013. 12 stigamót voru haldin og að meðaltali tóku 34.6 manns þátt í þeim, sem er fjölgun um 1.6 félaga frá því í fyrra. Þátttaka í Meistaramóti GG var í sögulegri lægð árið 2014, einungis 44 tóku þátt.

Grindavíkurbær hélt upp á 40 ára kaupstaðarafmælið með glæsilegu golfmóti í lok ágúst. Golfklúbburinn lánaði völlinn fyrir þrjú styrktarmót á árinu, Meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu hélt styrktarmót í lok apríl sem heppnaðist mjög vel og fór aðsókn fram úr björtustu vonum, hestamenn héldu Ridercup í lok ágúst og söfnuðu fé til góðgerðarmála og að lokum hélt sveit GG styrktarmót fyrir kostnaði við sveitakeppni GSÍ. Landsamband eldri kylfinga LEK hélt hjá okkur fjölmennt mót þann 24. Maí.

Kvennamót Bláa Lónsins er orðin árviss viðburður hjá okkur og tókst mótið með eindæmum vel. Möllerinn sem er einn af okkar árvissu viðburðum hefur átt undir högg að sækja undanfarin ár og eftir frekar dapra þátttöku árið 2013 var ákveðið að breyta fyrirkomulagi Möllersins og spila að vori og ræsa alla út samtímis, en Möllerinn hefur verið spilaður að hausti. Skemmst er frá því að segja að þessi breyting skilaði tilætluðum árangri og mættu 34 sveitir til leiks.

Á Húsatóftavelli voru spiluð tvö mót á vegum GSÍ, í byrjun júní var Áskorendamótaröð Íslandsbanka og í ágúst var sveitakeppni eldri kylfinga 1. og 2. deild kvenna. 45 unglingar tóku þátt í Áskorendamótinu en 12 kvennasveitir mættu til leiks í sveitakeppnina. Það var margt um manninn á Húsatóftavelli þá daga sem sveitakeppnin stóð. Fengu vallarstarfsmenn mikið hrós fyrir ástand vallarins sem og snyrtimennsku.

Eftir frábæran árangur sveitar GG á Norðfirði 2013 þar sem sveitin okkar komst upp um deild, þá sendi GG sveit til keppni í 2.deild karla á Kiðjabergsvelli. Sveitina skipuðu þeir Helgi Dan Steinsson sem einnig var liðsstjóri, Kristinn Sörenssen, Davíð Arthur Friðriksson, Hávarður Gunnarsson, Ingvar Guðjónsson, Jón Júlíus Karlsson, Ásgeir Ásgeirsson og Sigurður Sverrir Guðmundsson. Þessir drengir voru klúbbnum sínum til sóma, héldu sæti sínu í annari deild en voru grátlega nærri því að komast upp í 1.deild.

Félagar í Golfklúbbi Grindavíkur keppa innbyrðis um fimm titla, Klúbbmeistari karla, Klúbbmeistari kvenna, Bikarmeistari, Tóftabóndi og Stigameistari. Árið 2014 eru eftirfarandi meistarar:

Klúbbmeistari karla: Helgi Dan Steinsson
Klúbbmeistari kvenna: Gerða Hammer
Bikarmeistari: Sverrir Auðunsson
Stigameistari: Gunnar Oddgeir Sigurðsson
Tóftabóndi: Guðmundur Andri Bjarnason

Af vinavallarsamningum GG við aðra klúbba er það helst að frétta að nýr samningur var gerður við GKG frá 1. júlí. Við fengum 468 heimsóknir frá GKG. Frá GO sem við höfum haft samning við í nokkur ár komu 265 sem er fjölgun um 15, frá GS komu 200 kylfingar sem er fækkun um 20, einnig var fækkun frá GVS um 23 en 40 kylfingar frá GVS heimsóttu okkur í sumar, 28 félagar GSG spiluðu golf hjá okkur, 120 félagar Icelandair Golfers heimsóttu Húsatóftavöll sumarið 2014. Fækkun er í heimsóknum Suðurnesjamanna, en umtalsverð fjölgun heimsókna af höfuðborgarsvæðinu. Um 200 heimsóknir eru frá helstu styrktaraðilum okkar þ.e.a.s. Bláa Lónið, Landsbankinn, Áltak, TM, Prentsmiðja GÓ, ÍAV, Grindin og fleiri. GSÍ kort voru notuð 152 sinnum á Húsatóftavelli sumarið 2014 sem er örlítil fækkun á milli ára.

Barna og unglingastarf
Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar GG var ákveðið að reyna að fá Helga Dan Steinsson PGA kennaranema til starfa fyrir klúbbinn. Það tókst og því ber að fagna, Helgi hefur mikinn metnað fyrir hönd klúbbsins og er að auki frábær kylfingur. Fyrsta verkið var að kaupa SNAG útbúnað, en SNAG stendur fyrir „starting new at golf“, kynnt var notkun á SNAG útbúnaði í Hópinu þann 23. mars í Menningarviku Grindavíkurbæjar. Það tókst býsna vel og komu milli 50 og 60 manns að kynna sér SNAG. Æfingar yngri kylfinga hófust í byrjun júní. Lögð var áhersla á grunnatriði golfsins í allt sumar og farið var í grunnatriði pútts, vippa og fullrar sveiflu. Lögð var mikil áherslu á að strákarnir skynjuðu muninn á því að vippa með mismunandi kylfum og áttu þeir að sjá muninn á milli flugs og rúlli boltans eftir því hvaða kylfu þeir notuðu. Einnig voru farnir göngutúrar um völlinn og farið yfir helstu golfvallarreglur og umgengni um völlinn.

Strax var lögð áherslu á það að æfingarnar færu fram á golfvellinum í stað þess að vera á rollutúninu því gott er að krakkarnir venjist því að koma á golfvöllinn til að stunda æfingar.

Mætingar á æfingarnar fóru fram úr björtustu vonum og þegar mest var mættu 25 kylfingar, 8-9 ára gamlir. Það verður að hrósa þeim sem mættu því að hegðun krakkana var í alla staði til fyrirmyndar. Þess ber þó að geta að engin stúlka mætti á golfæfingu. Áhugi strákanna var gríðarlegur og þarf því klúbburinn að halda vel utan um barna- og unglingastarfið til að byggja enn frekar á þessum grunni því það er alveg ljóst að framtíðin er björt.

Sumaræfingum lauk með golfmóti í lok ágúst þar sem spilaðar voru tvær holur auk vipp- og pútt keppni og enginn fór heim tómhentur. Helgi var tiltækur félagsmönnum GG alla þriðjudaga og miðvikudaga til einkakennslu.

Þessir þrír kylfingar voru ánægðir með Húsatóftavöll í gær.

Helgi Dan Steinsson (t.h) starfaði sem golfkennari GG á árinu 2014.

Fjármál
Til að uppbygging verði varanleg er nauðsynlegt að vöxtur og gæði fari saman. Golfklúbburinn hefur í nokkur ár staðið að uppbygginu á golfvellinum sjálfum, golfskálanum og umhverfi vallarins. Sú uppbygging hefur kostað mikla vinnu og fjármagn og eftir stendur golfvöllur sem félagsmenn geta vera stoltir af. Sem betur fer hefur Golfklúbbur Grindavíkur marga góða styrktaraðila til að standa straum af þessari fjárfestingu með klúbbnum. Án þeirra væri þessi uppbygging ekki möguleg. En sú staða er komin upp að skuldir klúbbsins hafa aukist á meðan félagsfjöldinn og tekjurnar hafa staðið í stað síðan 2012.

Það er tvennt sem hægt er að gera til að auka framleiðslu klúbbsins og gera klúbbnum kleift að t.d. fjárfesta í nýjum vélum og tækjum og það er 1) auka tekjur 2) draga úr kostnaði. Ef 2014 og 2013 eru borin saman kemur í ljós að 1) tekjurnar hafa lækkað milli ára eða um 2,3% á meðan 2) kostnaðurinn hefur hækkað um 7,4%. Það er öfugt við það sem þarf að gerast hjá klúbbnum. Ef litið er á hagnað eða afkomu klúbbsins fyrir árið 2014 er -2.545.587 kr. tap á rekstrinum sem er -3.457.393 kr. lakari afkoma en árið 2013.

Það eru tvær breytingar sem þarf að nefna þegar kemur að því að bera saman ársreikningana. Í ár bætist við auka mánuður við ársreikninginn og nær því 2014 rekstrarárið í raun 13 mánuði eða frá desember 2013 til desember 2014. Þessi breyting var gerð svo ársreikningurinn fyrir árið 2015 og allir aðrir komandi ársreikningar endurspegli almanaks árið. Sú breyting hafði u.þ.b. -800þ kr. áhrif á árið. Önnur breytingin er sú að ákvörðun var tekin til að draga úr því hvað telst til uppbyggingar vallar. Mismunurinn milli ára er yfir -1m kr. sem helst þá á rekstrareikningnum og færist þ.a.l. ekki yfir á efnahagsreikninginn. Megin ástæðan fyrir þessari breytingu er að veita gegnsærri mynd af rekstri og sjóðstreymi klúbbsins.

Annar áhrifaþáttur sem má nefna er að launakostnaðurinn hjá okkur hækkaði umtalsvert milli ára. Aðkoma Vinnumálastofnunar að rekstri klúbbsins minnkaði þannig að 2014 vorum við bara með tvo starfsmenn en ekki fjóra eins og var árið 2013. Endurgreiðslurnar fyrir þessa starfsmenn minnkuðu einnig á milli ára eða um 2.2m kr.

Við teljum Golfklúbb Grindavíkur hafa alla burði til þess að halda áfram að vaxa en við verðum að tryggja að gæðin haldist ekki bara á vellinum sjálfum heldur líka í fjármálum klúbbsins.

4. flöt á Húsatóftavelli

4. flöt á Húsatóftavelli

Lokaorð
Þar sem þetta er mín fyrsta samantekt fyrir hönd stjórnar á starfi Golfklúbbs Grindavíkur þá langar mig að nota tækifærið og þakka félagsmönnum fyrir góðar móttökur. Félagar voru duglegir að koma og spjalla við formanninn, koma með ábendingar um það sem betur mætti fara og hrósa okkur fyrir það sem vel var gert. Félagar í GG eru mjög duglegir að fylgjast með vellinum sínum og er það vel. Þessi samskipti eru að mínu mati mjög mikilvæg fyrir allt innra starf í klúbbnum.

Okkur vantar alltaf sjálfboðaliða til aðstoðar við ræsingu í mótum og fleira sem snýr að mótahaldi. Allir þeir sem hafa áhuga á að styrkja klúbbinn sinn á þann hátt eru beðnir um að hafa samband við stjórn. Einhverjir félagar eru með dómararéttindi en nýta þau ekki. Í dag eru tveir virkir héraðsdómarar hjá GG.

Hugmynd hefur skotið upp kollinum að félagar í klúbbnum ættleiði brautir, en þá er átt við að fylgjast sérstaklega vel með ákveðinni braut, hreinsa brotin tí af teig, laga boltaför á flöt o.sv.frv. Þarna gæti orðið skemmtileg keppni á milli klúbbfélaga í því hver eigi snyrtilegustu brautina.

Húsatóftavöllur er perla okkar Grindvíkinga, gleymum því ekki. Gestir okkar í sumar sem leið, innlendir sem erlendir, voru ósparir á hrósið: Frábærar flatir, bestu flatir sem ég hef spilað í sumar, útsýnið úr klúbbhúsinu, útsýnið á vellinum, frábærar brautir, sjávarlyktin yndisleg, stórkostlegt landslag, þetta er styttra frá borginni en ég hélt. Þetta er brot af því sem fólk sagði við mig í sumar, og gaman að geta þess að talsvert af gestum okkar lagði lykkju á leið sína til þess að koma ánægju sinni á framfæri.

F.h stjórnar Golfklúbbs Grindavíkur,
Halldór Einir Smárason formaður