Steinþór lék tveimur höggum undir aldri

Steinþór lék tveimur höggum undir aldri

Steinþór Þorvaldsson úr Golfklúbbi Grindavíkur lék í gær á 80 höggum í Aðventumóti GG sem fram fór á Húsatóftavelli við fínar aðstæður. Frammistaða Steinþórs væri líklega ekki frásögu færandi nema fyrir þær sakir að Steinþór er 82 ára gamall og lék því tveimur höggum undir aldri eins og það er stundum kallað.

Steinþór lék völlinn af rauðum teigum og er völlurinn rétt tæpir 4000 metrar að lengd af þeim teigum. Með frammistöðu sinni fékk Steinþór 34 punkta sem skilaði honum þriðja sætinu í punktakeppninni.

Þetta er ekki í fyrsta sinn í sumar sem Steinþór leikur undir aldri á Húsatóftavelli. Í ágúst lék Steinþór völlinn á 78 höggum eða fjórum höggum undir aldri í stigamóti á vegum klúbbsins. Sannarlega glæsilega frammistaða. Rætt var við Steinþór í 30 ára afmælisblaði Golfklúbbs Grindavíkur sem kom út fyrir tveimur árum.

Grindvíkingar sigursælir
Grindvískir kylfingar áttu góðu gengi að fagna í Aðventumótinu og urðu í þremur efstu sætunum. Jón Þórisson úr GG sigraði í punktakeppninni en hann nældi sér í 36 punkta með góðum hring. Eðvard Júlíusson úr GG fékk 35 punkta og varð í öðru sæti. Títtnefndur Steinþór hafnaði svo í þriðja sæti.

Guðmundur Ingvi Einarsson úr GKB bar sigur úr býtum í höggleiknum en hann lék á 73 höggum eða þremur höggum yfir pari. Nándarverðlaun voru veitt á 7. og 18. braut. Gerða Hammer GG var einn metra frá sjöundu holunni og Jónas Hjartarson NK var 87 cm. frá þeirri átjándu. Heildarúrslit í mótinu má finna með því að smella hér.

Mótanefnd þakkar öllum sem tóku þátt og minnir á að við höldum þessum aðventumótum áfram ef aðstæður og veður leyfa.

Flatirnar eru enn grænar á Húsatóftavelli þó desember sé á næsta leyti.

Flatirnar eru enn grænar á Húsatóftavelli þó desember sé á næsta leyti.

Séð yfir 11. og 9. flöt á Húsatóftavelli í Aðventumót GG 2014.

Séð yfir 11. og 9. flöt á Húsatóftavelli í Aðventumót GG 2014.

15. flöt á Húsatóftavelli hefur sjaldan verið betri en í ár.

15. flöt á Húsatóftavelli hefur sjaldan verið betri en í ár.

16. flöt á Húsatóftavelli þann 29. nóvember 2014.

16. flöt á Húsatóftavelli þann 29. nóvember 2014.