Tæplega 100 kylfingar léku í öðru Nóvembermóti GG

Tæplega 100 kylfingar léku í öðru Nóvembermóti GG

Annað Nóvembermót Golfklúbbs Grindavíkur fór fram sunnudaginn 23. nóvember við fínar aðstæður. Um 100 kylfingar tóku þátt í mótinu og var ræst úr á tveimur teigum til að sem flestir kylfingar gætu tekið þátt í mótinu.

Þurrt var í veðri og veður fínt fram eftir degi. Eftir hádegi fór að blása örlítið. Kylfingar létu það lítið á sig fá enda hreinlega ótrúlegt að geta leikið keppnisgolf í lok nóvember á Íslandi. Keppendur voru jafnframt mjög ánægðir með völlinn og aðstæður. Einn keppandi sendi okkur þennan póst að móti loknu:

„Ótrúlegt að leika á svona góðum velli og flötum í lok nóvember!“

Keppt var í punktakeppni og jafnframt veitt verðlaun fyrir besta skor í höggleik. Gunnar Marel Einarsson úr GOS lék best allra en hann lék Húsatóftavöll á 69 höggum eða einu höggi undir pari. Flott frammistaða hjá Gunnari sem hreppti fyrstu verðlaun í höggleik.

Í punktakeppni var þar það Björn Árnason úr GK sem sigraði en hann hlaut 37 punkta. Ágúst Þór Gestsson úr GÖ varð annar með 36 punkta og Sigurður Sigurjónsson hafnaði í þriðja sæti með 35 punkta. Veitt voru nándarverðlaun á tveimur brautum.

Nándarverðlaun:
7. braut: Guðmundur A. 1,6m
18. braut: Þórarinn Þorbjörnsson, GR 1,27m

Nánari úrslit í mótinu má finna á golf.is. Við þökkum keppendum fyrir þátttökuna og stefnum að því að halda annað mót um næstu helgi verði veður gott.

Þessir þrír kylfingar voru ánægðir með Húsatóftavöll í gær.

Þessir þrír kylfingar voru ánægðir með Húsatóftavöll í gær.

Þakkir fyrir þátttökuna,
Mótanefnd Golfklúbbs Grindavíkur