Aðalfundur Golfklúbbs Grindavíkur fór fram í gær í golfskála klúbbsins að Húsatóftum. Halldór Einir Smárason var kjörinn nýr formaður klúbbsins. Fráfarandi formaður, Páll Erlingsson, gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu en hann tók við sem formaður GG árið 2008. Halldór Einir hefur gengt embætti varaformanns undanfarin tvö ár. 28 félagar sátu aðalfundinn.
Afkoma klúbbsins á rekstrarárinu 2013 var hagnaður upp á 911 þúsund kr. Rekstrartekjur voru 40,2 m.kr. en rekstrargjöld 37,3 m.kr. Eftir fjármagnstekjur og fjármagnsgjöld stóð eftir 911 þúsund kr. í hagnað.
Efnahagsstaða klúbbsins er nokkuð erfið eftir kostnaðarsamar framkvæmdir á undanförnum árum. Heildarskuldir klúbbsins nema um 20 milljónum króna. Húsatóftavöllur stækkaði í 18 holur árið 2012 og tók klúbburinn í notkun nýjan golfskála sama ár. Þessar framkvæmdir hafa verið mjög kostnaðarsamar fyrir klúbbinn og enn eru nokkur verkefni sem þarf að ráðast í.
Félagsgjöld hækka um 7%
Samþykkt var á fundinum að hækka félagsgjöld. Einstaklingsgjald hækkar úr 55 þúsund kr. í 59 þúsund kr. Önnur gjöld hækka samsvarandi um 7%.
Endurnýjun var í stjórn klúbbsins. Páll Erlingsson, Gunnar Sigurðsson og Jóhann S. Ólafsson gengu úr stjórn. Í þeirra stað komu inn þeir Ingvar Guðjónsson, Ólafur Már Sigurðsson og Þorlákur Halldórsson.
„Ég vil þakka félögum Golfklúbbs Grindavíkur það traust sem þeir sýna mér. Þetta er stórt verkefni sem ég hlakka til að takast á við. Páll Erlingsson, fráfarandi formaður, á heiður skilið fyrir frábært starf. Hann á stóran þátt í miklum uppgangi klúbbsins á síðustu árum og hreinlega unnið þrekvirki. Klúbburinn mun ævinlega standa Páli í þakkarskuld fyrir störf hans fyrir klúbbinn,“ segir Halldór Einir Smárason, nýr formaður GG.
„Það eru stór verkefni framundan hjá GG. Þrátt fyrir erfitt ár veðurfarslega þá tókst klúbbnum að skila hagnaði og gefur það góð fyrirheit fyrir komandi ár. Á næstu árum þarf að ráðast í að grynnka á skuldum klúbbsins samfara því að halda áfram uppbyggingu á Húsatóftavelli sem er svo sannarlega að festa sig í sessi sem 18 holu golfvöllur. Það eru bjartir tímar framundan.“
Stjórn GG 2014:
Halldór Einir Smárason, formaður
Jón Guðmundsson
Jón Júlíus Karlsson
Ólafur Már Guðmundsson
Sigmar Eðvarðsson
Sverrir Auðunsson
Þorlákur Halldórsson
Varastjórn
Halldór Ingvason
Ingvar Guðjónsson